Fótbolti

Hamann: Bayern mun ekki ráða við Drogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dietmar Hamann, fyrrum miðjumaður Bayern München, Liverpool og þýska landsliðsins, spáir því að Chelsea vinni Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á morgun og ástæðan fyrir því sé Didier Drogba.

„Didier Drogba er aðalmaðurinn hjá Chelsea. Þegar hann nær sé á strik þá ræður enginn við hann. Drogba er stórkostlegur leikmaður og það er frábært hvernig hann leiðir sitt lið sem fremsti maður. Ef hann á góðan leik á laugardaginn þá eiga þeir góða möguleika á því að vinna," sagði Dietmar Hamann.

„Drogba var frábær í undanúrslitaleiknum á móti Barcelona sem og í bikarúrslitaleiknum á móti Liverpool. Bayern-liðið þarf að undirbúa sig fyrir það að verjast honum því hann er afar kraftmikill," sagði Hamann.

John Terry, Branislav Ivanovic, Ramires og Raul Meireles eru allir í leikbanni hjá Chelsea í þessum leik en Hamann segir enska liðið ráða við það. Luiz Gustavo, David Alaba og Holger Badstuber eru allir í banni hjá Bayern.

„Það er mín tilfinning að Chelsea sé með breiðari hóp og eigi auðveldara með að vega upp þá leikmenn sem vantar. Þetta verður frábær úrslitaleikur en ég tel að Chelsea eigi meiri möguleika með reynslubolta innanborðs eins og Drogba, Ashley Cole, Frank Lampard og Petr Cech. Bayern er á heimavelli en þeir eru líka án sterkra leikmanna. Þetta verður jafn leikur en ég spái Chelsea sigri," segir Hamann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×