Fótbolti

Lyon vann Meistaradeildina annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Franska félagið Olympique Lyonnais tryggði sér sigur í Meistaradeild kvenna í fótbolta í kvöld með því að vinna 1. FFC Frankfurt 2-0 í úrslitaleiknum á Ólympíuleikvanginum í München. Bæði mörk franska liðsins komu í fyrri hálfleiknum.

Eugénie Le Sommer og Camille Abily skoruðu mörk Lyon í leiknum en þær urðu einmitt markahæstar í Meistaradeildinni á tímabilinu með níu mörk hvor.

Le Sommer skoraði markið sitt úr vítaspyrnu á 15. mínútu en Abily nýtti sér slæma hreinsun markvarðar Frankfurt og sendi boltann yfir markvörðinn og í tómt markið á 28. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki.

Lyon vann Turbine Potsdam 2-0 í úrslitaleiknum í fyrra en hafði tapað úrslitaleiknum á móti Potsdam árið áður.

Lyon sló út Margréti Láru Viðarsdóttur og félaga í 1. FFC Turbine Potsdam í undanúrslitunum en Potsdam var eina liðið sem Lyon tókst ekki að vinna í útsláttarkeppninni því liðin gerðu markalaust jafntefli í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×