Fótbolti

Redknapp ætlar að mæta til München og styðja Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp og Martin Jol.
Harry Redknapp og Martin Jol. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, ætlar að mæta á úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram í München á laugardaginn. Leikurinn skiptir Tottenham miklu máli þótt að liðið sé ekki á staðnum.

Redknapp mun ekki halda með frænda sínum Frank Lampard eða löndum sínum í Chelsea því Tottenham kemst ekki í Meistaradeildina nema ef Bayern München vinni leikinn. Chelsea getur tryggt sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð með því að vinna Meistaradeildina.

„Ég vil að Bayern vinni Chelsea, hvort sem að Frank spili eða ekki. Hann tekur því ekkert illa. Hann veit að mín tryggð er aðeins við Tottenham og ég vil að Tottenham verði í Meistaradeildinni á næstu leiktíð," sagði Harry Redknapp.

„Ég ætlaði alltaf að fara á úrslitaleikinn og er búinn að hlakka til lengi. Það er miklu betra að vera á staðnum en að horfa á leikinn í sjónvarpinu," sagði Redknapp.

„Við höfum gert okkar og þetta er ekki lengur í okkar höndum. Ég gæti samt ekki verið ánægðari með frammistöðu liðsins á tímabilinu," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×