Handbolti

Orri Freyr fylgir Óskari Bjarna til Viborg

Guðjón Guðmundsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Orri Freyr Gíslason, línumaður Vals í N1 deild karla í handbolta, hefur gert tveggja ára samning við danska félagið Viborg. Orri Freyr mun því fylgja þjálfara sínum Óskari Bjarna Óskarssyni til danska félagsins en Óskar Bjarni mun þjálfa liðið á næsta tímabili.

Orri Freyr, sem fagnaði 24 ára afmæli sínu í gær, var í æfingabúðum hjá Viborg í síðustu viku og Dönunum leyst mjög vel á hann. Hann fékk líka örugglega fín meðmæli hjá Óskari Bjarna sem hefur þjálfað hann undanfarin ár.

Susanne Munk Wilbek, framkvæmdastjóri Viborg HK og eiginkona Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfara Dana, er eins og eiginmaður sinn mjög hrifin af íslenskum handboltamönnum.

Orri Freyr var undir smásjá liða í þýsku b-deildinni en kaus frekar að fara til Danmerkur. Hann æfði undir stjórn Ingólfs Snorrasonar í Hreyfingu í vetur og tók miklum framförum.

Orri Freyr er stór og stæðilegur línumaður sem hefur verið fastamaður í Valsliðinu undanfarin tímabil. Hann þarf væntanlega að bæta sig enn frekar varnarlega en hefur tækifæri til þess hjá danska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×