Innlent

Örtröð í Reykjavíkurhöfn, mörg skip bíða eftir viðleguplássi

Hugsanlega komast ekki öll skip fyrir í höfninni. Þau þurfa þá að bíða fyrir utan höfnina.
Hugsanlega komast ekki öll skip fyrir í höfninni. Þau þurfa þá að bíða fyrir utan höfnina. Mynd / GVA
Örtröð er nú í gömlu Vesturhöfninni í Reykjavík og bíða mörg skip þess úti á sundum að komast inn.

Að sögn hafnsöguvaktarinnar er verið að færa til skip og velja svo skip inn til að leggja utan á önnur álíka stór. Töluvert af smábátum er líka komið inn í höfnina og starfsmaður, sem er á vaktinni segist aldrei haf séða annan eins fjölda á 33 ára fstarfserli sínum hjá höfninni.

Þá er Fréttastofunni kunnugt um þó nokkur skip, sem eru á leiðinni til viðbótar og stefnir allt í af fjöldinn fari í eitt hundrað þegar mest verður upp úr hádeginu. þetta eru fiskiskip í eigu útgerðarfélaga innan LÍÚ og margir bátar í Landssambandi smábátaeigenda.

Koma þeirra til Reykjavíkur er þáttur í svonefndum samstöðufundi á Austurvelli klukkan fjögur í dag, en að fundi loknum halda skipin beint á veiðar. Þau hafa sem kunnugt er verið bundin við bryggjur síðan á sjómannadaginn, í mótmælaskyni við frumvörp um fiskveiðar og veiðigjöld, sem liggja fyrir Alþingi.

Samkvæmt upplýsingum frá LÍÚ munu öll skip sem geta leggjast að bryggju í miðborginni, en mögulegt sé að skip þurfi að bíða fyrir utan á meðan mótmælunum stendur.

Við þetta má bæta að í auglýsingum frá LÍÚ sem birtust í Fréttablaðinu í dag kom fram að mótmælin hæfust klukkan eitt í dag. Það er rangt, eins og fyrr segir, þá hefjast mótmælin klukkan fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×