Enski boltinn

Mirror: Gylfi mun fylgja Rodgers til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enska dagblaðið The Mirror greindi frá því í gærkvöldi að Gylfi Þór Sigurðsson hafi ákveðið að ganga til liðs við Liverpool og fylgja þar með fordæmi Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóra Swansea.

Rodgers tók við Liverpool fyrr í sumar en hann stýrði Swansea áður með góðum árangri. Hann fékk Gylfa til félagsins á lánssamningi frá Hoffenheim um áramótin síðustu og stóð Gylfi sig vel með liðinu.

Áður en Rodgers fór yfir til Liverpool voru Swansea og Hoffenheim búin að komast um samkomulagi um kaupverð á Gylfa, sem átti þá ekki annað eftir en að gangast undir læknisskoðun og skrifa undir langtímasamning við félagið.

Mirror segir að Gylfi sé nú búinn að ákveða að fara til Liverpool sem greiðir svipaða upphæð fyrir kappann og Swansea átti að gera, eða um 1,4 milljarða króna. Gylfi er þó sagður ætla að hitta nýjan knattspyrnustjóra Swansea til að skýra mál sitt með formlegum hætti.

Swansea er þó enn í stjóraleit og því óvíst hvenær af því geti orðið.

Allt stefnir því í að Gylfi Þór Sigurðsson verði fyrsti leikmaðurinn sem Brendan Rodgers kaupir til Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×