Trausti Stefánsson úr FH sló heldur betur í gegn á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum um helgina en hann vann í 100, 200 og 400 metra spretthlaupi og hirti því þrenn gullverðlaun.
Trausti vann 200 metra hlaupið í dag en hann kom í mark á 21,89 sekúndum. Kolbeinn Höður Gunnarsson frá UFA varð annar á 22,20 sekúndum og rétt á eftir honum kom Óli Tómas Freysson úr FH á 22,36 sekúndum.
Hafdís Sigurðardóttir úr UFA vann einnig þrenn gullverðlaun um helgina en hún bar sigur úr býtum í 100 og 200 metra spretthlaupi sem og í langstökki, greinilega frábært frjálsíþróttafólk á ferðinni.
