Nadzeya Ostapchuk frá Hvíta-Rússlandi þarf að skila gullverðlaunum sínum í kúluvarpskeppni kvenna á Ólympíuleikunum. Ostapchuk féll á lyfjapróf.
Ostapchuk gekkst undir lyfjapróf þann 5. ágúst og aftur daginn eftir þegar hún hafði tryggt sér gullverðlaun í greininni. Efnið metenólón fannst í báðum sýnum að því er Alþjóðaólympíusambandið greinir frá en efnið er á bannlista.
Ostapchuk, sem er 31 árs, keppti á sínum þriðju Ólympíuleikum. Hún hafnaði í fjórða sæti 2004 og fékk bronsverðlaun í Peking fyrir fjórum árum.
Valerie Adams frá Nýja-Sjálandi, sem hafnaði í öðru sæti, fær gullið og bronsverðlaun Evgeniiu Kolodko uppfærast í silfurverðlaun.
Kínverjinn Lijiao Gong, sem hafnaði í fjórða sætinu, fær bronsverðlaun.
