Fótbolti

Íslensk mörk í mikilvægum sigri Halmstad

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Baldvinsson.
Guðjón Baldvinsson.
Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson voru báðir á skotskónum þegar að Halmstad vann mikilvægan 3-0 sigur á Brommapojkarna á útivelli í sænsku B-deildinni í dag.

Guðjón skoraði fyrsta mark Halmstad á 14. mínútu og var það hans fjórtánda mark á tímabilinu. Hann er markahæsti leikmaður sænsku B-deildarinnar. Honum var skipt af velli á lokamínútum leiksins.

Kristinn Steindórsson spilaði allan leikinn og skoraði þriðja og síðasta mark Halmstad í blálok venjulegs leiktíma. Hann er nú kominn með sex mörk á tímabilinu.

Halmstad er í þriðja sæti deildarinnar með 41 stig og er nú einu stigi á eftir Brommapojkarna, sem er í öðru sæti. Öster er langefst á toppi deildarinnar með 54 stig.

Í sænsku úrvalsdeildinni tapaði Sundsvall fyrir Malmö á útivelli, 2-0. Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn með Sundsvall en Jón Guðni Fjóluson, sem gekk til liðs við félagið fyrir helgi var ekki í leikmannahópnum.

Åtvidaberg og Norrköping gerðu 1-1 jafntefli og spilaði Gunnar Heiðar Þorvaldsson fyrstu 75 mínúturnar í síðarnefnda liðinu.

Norrköping er í sjötta sæti deildarinnar með 30 stig en Sundsvall er í því tíunda með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×