Fótbolti

Aron skoraði fjögur fyrir AGF | Sló met Ebbe Sand

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Aron í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Mynd/Vilhelm
Aron Jóhannsson fór á kostum fyrir danska liðið AGF í dag og skoraði öll fjögur mörkin í 4-1 sigri á Horsens. Hann setti tvö met í leiknum en fyrstu þrjú mörkin komu á tæplega fjögurra mínútna kafla.

Aron skoraði fyrstu tvö mörkin af stuttu færi eftir fyrirgjöf og svo þriðja markið eftir skyndisókn. Mörkin voru skoruð á 32., 33. og 36. mínútu í fyrri hálfleik.

Samkvæmt Twitter-síðu tölfræðisérfræðinga danska knattspyrnusambandsins skoraði Aron mörkin þrjú á þremur mínútum og 50 sekúndum og slær hann þar með gamla metið sem Ebbe Sand setti árið 1997. Þá skoraði Sand þrennu á fjórum mínútum og tveimur sekúndum.

Fjórða markið kom svo úr vítaspyrnu á 49. mínútu og því skoraði Aron fernu á sextán mínútum. Er það einnig met í dönsku úrvalsdeildinni. Hann var búinn að skora eitt mark fyrir AGF á tímabilinu fyrir leik dagsins.

AGF komst upp í átta stig með sigrinum í dag en Aron hefur verið í byrjunarliðinu í öllum sjö leikjum liðsins á tímabilinu til þessa. Þetta var aðeins annar sigurleikur AGF á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×