Innlent

PIP-púðar fjarlægðir á kostnað ríkisins

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að bjóða öllum konum með PIP-púða að láta fjárlægja þá, þeim að kostnaðarlausu. Kostnaður ríkisins getur numið allt að 150 milljónum. Þær konur sem vilja nýja púða þurfa sjálfar að greiða fyrir aðra aðgerð.

Landlæknir mæltist til þess fyrir helgi að PIP-púðar verði fjarlægðar úr öllum konum, í ljósi nýrrar skýrslu vísindanefndar Evrópusambandsins um mögulega hættu af púðunum. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra tók undir þetta og tók málið upp á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem það var samþykkt.

Hann segir enn erfitt að áætla kostnað, sem fari eftir fjölda þeirra sem nýta sér úrræðið. „Auðvitað er þetta viðbót inn á landspítalann þannig að við erum að áætla að kostnaðurinn gæti verið á bilinu níutíu og upp í hundrað og þrjátíu, til hundrað og fimmtíu milljónir. Það fer eftir umfanginu og hversu auðvelt verður að fjarlægja þetta."

Fjöldi kvenna með PIP-púða stefnir á að fá nýja púða í staðinn, og eru tilbúnar til að greiða sjálfar fyrir þá, en í staðinn fyrir að þær greiði lýtalækni á einkastofu fyrir að setja púðana í óska eftir að aðgerðin í boði ríkisins verði einnig nýtt til þess.

„Við reiknum ekki með að það verði í boði á vegum Landspítalans. Það hafa aldrei verið gerðar þessar fegrunaraðgerðir á spítalanum og mér sýnist á þessum fyrstu upplýsingum sem við fáum úr ómskoðunum að þarna sé mikilvægast að hreinsa þetta út í fyrstu lotu og að líkaminn fái að jafna sig. Það sem við erum að bjóða upp á er fyrst og fremst er að þessir púðar verði fjarlægðir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×