Fótbolti

AC Milan vann á sjálfsmarki í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
AC Milan missti niður tveggja marka forystu og þurfti að treysta á sjálfsmark til þess að tryggja sér 3-2 sigur á Zenit St Petersburg í fyrsta leik dagsins í Meistaradeild Evrópu í fótbota. Leikurinn fór fram á Petrovski Park í Sankti Pétursborg.

AC Milan er með fjögur stig og á toppi riðilsins eins og er en Málaga er með stigi minna og á leik inni á móti Anderlecht í kvöld. Zenit St Petersburg er án stiga á botni riðilsins.

Slóvakinn Tomas Hubocan varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark fimmtán mínútum fyrir leikslok eftir að Zenit-liðið var búið að vinna upp tveggja marka forskot.

Urby Emanuelson og Stephan El Shaarawy komu AC Milan í 2-0 á fyrstu sextán mínútunum, Emanuelson með skoti úr aukaspyrnu og El Shaarawy eftir glæsilegan einleik.

Brasilíumaðurinn Hulk minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og lagði síðan upp jöfnunarmark fyrir Roman Shirokov þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Það dugði Zenit-liðinu ekki til að fá stig því sjálfmark Tomas Hubocan var nóg fyrir AC Milan til að taka öll þrjú stigin með sér til Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×