Menning

Eru einu kennararnir í kyrrðinni á Drangsnesi

Björn Kristjánsson við höfnina á Drangsnesi. Hann og kona hans, Birna Hjaltadóttir, eru einu kennararnir í þorpinu.
Björn Kristjánsson við höfnina á Drangsnesi. Hann og kona hans, Birna Hjaltadóttir, eru einu kennararnir í þorpinu. mynd/svavar pétur eysteinsson
"Hérna er allt talsvert rólegra og einfaldara," segir tónlistarmaðurinn Borko sem er fluttur úr Reykjavík norður á Drangsnes ásamt konu sinni Birnu Hjaltadóttur.

Þau eru allt í öllu í grunnskóla þorpsins því þau sjá um alla kennsluna í skólanum. Nemendurnir eru aðeins ellefu talsins. Birna er jafnframt skólastjóri. "Hún er ættuð héðan af svæðinu, úr Árneshreppi, og þekkir ágætlega til á Drangsnesi. Þegar við fréttum að þessi staða væri laus fannst okkur það ansi spennandi að breyta til og gera eitthvað nýtt," segir Borko, eða Björn Kristjánsson, um flutninginn norður á land. Þau voru áður kennarar í Norðlingaskóla en sjá ekki eftir því að hafa skipt um starfsvettvang. "Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni. Það er samt heljarinnar mál að setja sig inn í námsefni allra greinanna í öllum bekkjum. Það er búið að vera stærsta verkefni haustsins."

Aðspurður segir hann gott að semja tónlist á nýja staðnum. "Maður hefur aðeins meira rými til þess. Klukkan einhvern veginn tikkar öðruvísi. Maður hefur færri skyldum að gegna gagnvart fjölskyldunni og öðru fólki og svigrúmið verður miklu meira." Önnur sólóplata Borko er einmitt að koma út bæði hér á landi á vegum Kimi Records og úti í heimi hjá útgáfunni Sound of a Handshake, undirfyrirtæki hins þýska Morr Music. Síðasta plata hans, Celebrating Life, kom út fyrir fjórum árum.

Borko gerir meira en að kenna og semja tónlist á Drangsnesi því hann hefur einnig ýtt úr vör tónleikaröðinni Mölinni sem verður haldin mánaðarlega á Malarkaffi á Drangsnesi. Á fyrstu tónleikunum síðasta laugardag spiluðu Prinspóló, eða Svavar Pétur Eysteinsson, og kona hans Berglind Hässler. Þau hafa undanfarnar vikur einnig dvalist á Drangsnesi. Þar starfa þau sem gestakennarar í grunnskólanum út þessa viku og eru að búa til skólablað með krökkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.