Knattspyrnumaðurinn Mark Doninger, sem lék með Stjörnunni og ÍA, hefur fengið sinn annan dóm fyrir líkamsárás á Íslandi. Að þessu sinni fyrir að hafa í tvígang beitt fyrrverandi kærustu sína ofbeldi.
Doninger var dæmdur í 45 daga fangelsi en sleppur við fangavistina haldi hann skilorð í þrjú ár. Doninger hafði áður fengið skilorðsbundinn dóm fyrir líkamsárás.
Doninger er sakfelldur fyrir að hafa veitt konunni hnefahögg í andlitið á skemmtistað og síðan veist að henni með frekara ofbeldi fyrir utan staðinn.
Hann er einnig sakfelldur fyrir að ráðast á konuna á heimili sínu í október árið 2011. Þar á hann að hafa rifið í hár hennar, hrist hana, dregið hana á hárinu og skallað hana meðal annars.
Doninger neitaði sök í báðum ákæruliðum en það þótti hafið yfir vafa að hann hefði veist að konunni með fyrrgreindum hætti.
Doninger hefur yfirgefið Ísland og ekki er víst hvort hann snúi aftur hingað til lands.
Íslenski boltinn