Fótbolti

Fyrsta tap FCK á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FC Kaupmannahöfn tapaði í kvöld sínu fyrsta leik á tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni. FCK tapaði fyrir AC Horsens á útivelli, 1-0.

Steffen Kielstrup skoraði eina mark leiksins á 34. mínútu. Horsens missti svo mann af velli með rautt spjald á lokamínútum leiksins en það kom ekki að sök.

FCK er þó enn á toppi deildarinnar en liðið er með 29 stig að loknum fjórtán umferðum. Álaborg kemur næst með 26 stig en Horsens er um miðja deild með nítján stig.

Ragnar Sigurðsson var í byrjunarliði FCK en Sölvi Geir Ottesen kom inn á sem varamaður fyrir hann á 89. mínútu. Rúrik Gíslason var á bekknum hjá FCK.

Þá var einnig spilað í Noregi. Pálmi Rafn Pálmason var í byrjunarliði Lilleström sem vann góðan 3-2 útisigur á Brann. Birkir Már Sævarsson spilaði allan leikinn í vörn Brann en Pálmi Rafn var tekinn af velli á 59. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×