Margir Siglfirðingar voru óttaslegnir í nótt þegar jarðskjálftarnir gengu yfir. Þar á meðal Birna Kristín Eiríksdóttir.
„Við vorum á leiðinni í rúmið um ellefuleytið og svo milli ellefu og tólf þá er allt í einu eins og vörubíll hafi keyrt á húsið. Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á því hvað þetta væri og það fór eiginlega ekki á milli mála því svo komu margir skjálftar í kjölfarið og það var á tímabili þannig að rúmið titraði stanslaust. Það var verið að vagga manni í svefn svona í rólegheitum. Þetta var frekar magnað. Svo var maður rétt að ná að festa svefn aftur þegar stóri skjálftinn reið yfir og þá hélt ég að ég yrði ekki eldri. Þá reif ég litluna mína sem er 7 vikna beint úr rúminu sínu og við hlupum inn í dyragætt og stóðum þar á meðan allt gekk yfir. Þetta var svaka hávaði og mikil læti. Við vorum svo sem mjög heppin hér því það var ekkert sem skemmdist eða neitt svoleiðis," segir Birna.
Birna segir kirkjuklukkur hafa hringt af völdum skjálftanna og að hún viti til þess að rúður hafi brotnað og munir fallir úr skápum og hillum.
„Það hrundi svolítið úr hillum hjá einni frænku okkar. Hún var nú búin að klæða sig upp og ætlaði bara að fara út úr bænum. Þetta er svaka reynsla, þetta hreyfir við móðurhjartanu þegar maður er nýbúinn að eignast barn. Maður var frekar hræddur, það get ég sagt þér," segir hún.
Já, það hefur verið hræðsla hjá fólkinu á svæðinu?
„Já, það var töluverð hræðsla, ég sá það bara á Facebook. Það voru bara meira og minna allir sem maður þekkir sem búa hérna vakandi og voru að fylgjast með þessu og eru frekar vansvefta. Þetta verður sennilega draugabærinn í dag," segir Birna
Hafið þið fundið einhverja skjálfta síðasta klukkutímann, síðustu tvo?
„Nei, annað hvort er maður búinn að aðlagast þessu eða eitthvað. Það eru einhverjir litlir skjálftar í gangi en maður tekur ekkert eftir þeim, þetta er að verða búið. Sem er frábært," segir Birna Kristín Eiríksdóttir, sem stödd er á Siglufirði.
