Fótbolti

Gazzetta dello Sport: PSG vill fá bæði Ronaldo og Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Cristiano Ronaldo.
Jose Mourinho og Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport slær því upp í dag að franska félagið Paris Saint-Germain ætli að fá bæði Cristiano Ronaldo og José Mourinho til liðsins fyrir næsta tímabil.

Samningamálin ganga illa hjá Portúgalanum en hann er ekki sáttur við nýjustu tilboðin frá Real Madrid. Cristiano Ronaldo er að fá tíu milljónir evra í árslaun en vill ekki vera minni maður en Lionel Messi sem fær fimmtán milljónir evra á ári.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, hefur verið að reyna að leysa málin en það lítur út fyrir að félagið geti "aðeins" boðið Ronaldo fjórtán milljónir evra í árslaun. Blaðamaður Gazzetta dello Sport hefur heimildir fyrir því að Ronaldo vilji fá 18 milljónir evra á ári en núverandi samningur hans rennur út 2015.

Jorge Mendes, umboðsmaður Cristiano Ronaldo, er að vinna á fullu í þessu máli en José Mourinho er einnig með puttana í þessu og ítalska blaðið segir að portúgalski þjálfarinn geti fylgt með kaupunum.

Paris Saint-Germain er tilbúið að kaupa Ronaldo á 100 milljónir evra en kostnaður félagsins við komu Ronaldo og Mourinho gæti farið yfir 300 milljónir evra á næstu fimm árum. Milljarðamæringarnir á bak við liðið heimta hinsvegar árangur og eru tilbúnir að eyða sögulegum upphæðum til að liðið komist strax á toppinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×