Innlent

Strákar til stjarnanna - stelpur til skúringa

Bókin sem um ræðir. Soffía Gísladóttir tók myndina í bókabúðinni Úlfarsfelli í Vesturbænum.
Bókin sem um ræðir. Soffía Gísladóttir tók myndina í bókabúðinni Úlfarsfelli í Vesturbænum.
„Ég ætlaði hugsanleg að kaupa svona bók, hugmyndin er góð," segir Soffía Gísladóttir listakona, sem varð var við heldur úreltar kynjamyndir þegar hún var að skoða barnabækurnar Bláa bókin mín og Bleika bókin mín.

Soffía fletti í gegnum þess bleiku þar sem hún var að velta því fyrir sér að kaupa slíka bók fyrir litla stúlku. „Svona er þetta innstimplað í mann," segir Soffía þegar hún útskýrir að hún hafi sjálfkrafa valið bleiku bókina þegar hún var að hugsa um gjöf fyrir litla stelpu.

Soffía segir bleiku bókina ekki hafa heillað sig, „þannig ég byrjaði á því að skoða þessa bláu," segir Soffía. Þá sá hún heldur sérkennilegan mun á bókunum. Í þeirri bleiku er boðskapurinn sá að allir hafa sitt hlutverk, svo sjást litlar stelpur að sópa gólf, vökva, baka, ryksuga og taka til.

Þegar bláa bókin er skoðuð, er forskriftin einfaldari; þar segir yfir mynd af drengjum: Út í geim. Við hlið þeirrar blaðsíðu má finna myndir af stjörnum í geimnum og uppbyggilegan fróðleik. Drengirnir fara semsagt til stjarnanna á meðan stúlkurnar skúra.

„Ég hætti eðlilega við að kaupa bækurnar," segir Soffía en hún tók meðfylgjandi mynd af blaðsíðunum sem um ræðir, sem hafa að auki valdið gífurlegri hneykslun á samskiptavefnum Facebook.

Þannig hafa um sjö hundruð notendur vefsins deilt myndinni hneyksklaðir. Bækurnar eru til sölu á vef Forlagsins og í helstu bókabúðum. Útgefandi er aftur á móti Setberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×