Fótbolti

Helgi Valur gerði titilvonir Häcken að engu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Valur fagnar marki í leik með AIK.
Helgi Valur fagnar marki í leik með AIK. Nordic Photos / AFP
Helgi Valur Daníelsson skoraði mikilvægt mark fyrir toppbaráttuna í sænsku úrvalsdeildinni er hann tryggði sínum mönnum í AIK 1-1 jafntefli gegn Häcken.

Helgi Valur skoraði jöfnunarmark AIK í lok fyrri hálfleiks og þar við sat. Hann spilaði allan leikinn í liði AIK.

Fyrr í dag vann Elsborg 3-2 útisigur á Mjällby og er með 58 stig þegar ein umferð er eftir af tímabilinu. Häcken er í þriðja sætinu með 54 stig og á ekki lengur möguleika á að ná Elfsborg að stigum.

Malmö er í öðru sæti með 56 stig og er nú eina liðið sem getur hirt sænska meistaratitilinn af Elfsborg.

Skúli Jón Friðgeirsson er á mála hjá Elfsborg en hann var ónotaður varamaður í leik liðsins í dag.

AIK er í fjórða sæti deildarinnar með 52 stig og mætir einmitt Malmö í lokaumferðinni á sunnudag. Elfsborg mætir þá Åtvidaberg sem siglir lygnan sjó um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×