Menning

Skapa eigin tækifæri

Þau Claudia Hausfeld, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Helgi Þórsson í Kunstschlager sem þau stofnuðu í sumar ásamt Steinunni Harðardóttur og Baldvini Einarssyni.
Þau Claudia Hausfeld, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Helgi Þórsson í Kunstschlager sem þau stofnuðu í sumar ásamt Steinunni Harðardóttur og Baldvini Einarssyni. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Sýningarrýmið Kunstschlager var opnað við Rauðarástíg í sumar. Að því standa nokkrir myndlistarmenn sem vildu ekki bíða eftir að tækifærin bönkuðu upp á heldur skapa sér þau sjálf.



„Það tekur í raun ekkert sérstakt við hjá myndlistarmönnum eftir að námi lýkur. Á Íslandi eru möguleikar af skornum skammti og maður þarf að búa til sín eigin tækifæri," segir Guðlaug Mía Eyþórsdóttir en hún stofnaði galleríið Kunstschlager í sumar ásamt Baldvini Einarssyni, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Claudiu Hausfeld, Helga Þórssyni og Steinunni Harðardóttur.

„Viðtökur hafa verið ótrúlega góðar, það er greinilega vöntun á stað eins og þessum því við tökum við umsóknum í hverri viku og náum alls ekki að anna eftirspurn.“

Vinna tvöfalda vinnu


Öll eru þau myndlistarmenn og hafa vinnustofur í kjallara hússins, þar sem þau vinna á meðan galleríið er tómt.

„Það er vissulega mjög hvetjandi að hafa stað til að geta sýnt það sem maður er að gera,“ segir Guðlaug en viðurkennir að rekstur gallerísins sé mikil vinna. „Auðvitað væri þetta talsvert auðveldara ef við fengjum styrki frá ríkinu eða borginni því eins og stendur erum við öll í annarri vinnu til þess að halda galleríinu gangandi. Meðan við borgum allt úr eigin vasa verðum við að hugsa smátt,“ segir Guðlaug og bætir við: „Vonandi átta stjórnvöld sig einn daginn og skilja mikilvægi þess að styðja við menningu okkar í dag.“

Listamaður vikunnar

Galleríið er tvískipt. Annar hlutinn er svokallaður Basar þar sem kaupa má samtímalist eftir ýmsa listamenn, bæði þekkta og óþekkta. „Okkur langaði að bæta aðgengi fólks að myndlistinni og skapa vettvang þar sem henni væri komið út til almennings,“ segir Guðlaug en bætir við að þrátt fyrir að verkin séu á sanngjörnu verði sé salan ekki mikil. „Það er eins og fólk átti sig ekki á verðmætunum sem felast í myndlist.“

Á Basarnum er vikulega valinn listamaður til að prýða einn vegg í Basarnum, en þá er sú vika tileinkuð honum. "Þessi dagskrárliður varð til einfaldlega til þess að koma til móts við allar umsóknirnar sem við fáum," útskýrir Guðlaug.

Síbreytilegt gallerí

En hvernig sker Kunstschlager sig úr galleríflóru borgarinnar? „Við reynum að vinna ekki innan ákveðins ramma. Kunstschlager er síbreytilegur, stendur fyrir sýningum, uppákomum og útgáfum sem verða vonandi fleiri í framtíðinni. Við erum opin fyrir öllu og takmörkum okkur ekki við sérstaka stefnu eða eitthvað slíkt,“ útskýrir Guðlaug og bætir við: „Í desember ætlum við til dæmis að breyta galleríinu í risastóran jólabasar sem verður opinn fram á aðfangadag. Með þessu viljum við hvetja fólk til að gefa myndlist í jólagjöf.“

Guðlaug segir enn fremur að opnanir í galleríinu hafi verið mjög vel sóttar. „Um daginn mættu til dæmis um 250 manns, þó svo að engin önnur opnun hafi verið í bænum. Flestir sem mæta á opnanir tengjast listheiminum en við viljum gjarnan sjá fólk úr öllum áttum og hvetjum sérstaklega þá sem ekki fara oft á myndlistarsýningar til þess að koma.“

Næstkomandi laugardagskvöld opnar Rebekka Moran sýningu í aðalsal Kunstschlager. Gestir fá þá líka að sjá nýja hlið á Kristínu Ómarsdóttur rithöfundi en hún heldur sýningu á teikningum sem listamaður vikunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×