Innlent

Norðmenn skoða Ísland sem þjónustumiðstöð olíuleitar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norðmenn gera í nýrri skýrslu um olíuleit á Noregshluta Jan Mayen-hryggjarins ráð fyrir þeim möguleika að þjónustunni verði sinnt frá Íslandi. Þrefalt lengra er að þjónusta leitina frá Noregi.

Það eru ekki bara Íslendingar sem áforma olíuleit á Jan Mayen-svæðinu. Norðmenn eru einnig komnir á fullt við að undirbúa leit sín megin og miðað við þann kraft sem þeir hafa nú sett í málið gæti svo farið að þeir verði fyrri til að hefja boranir á svæðinu, jafnvel árið 2017.

Norsk stjórnvöld eru jafnframt farin að skoða hvernig best sé að þjónusta olíuleitina Noregsmegin og í nýlegri skýrslu, sem unnin var fyrir olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs, er Ísland meðal þeirra kosta sem velt er upp fyrir miðstöð þyrlu- og björgunarflugs til olíuborpalla á Jan Mayen-svæðinu. Miðað er við 200 kílómetra flughraða, sem er algengt á þeim þyrlum sem sinna slíkri þjónustu í Norðursjó.

Fram kemur að styst sé að sinna þjónustunni frá Jan Mayen, í dæmi í skýrslunni reiknast loftlínan 270 kílómetrar og flugtíminn ein klukkustund og 21 mínúta. Til norðurhluta Íslands reiknast skýrsluhöfundum að séu 310 kílómetrar frá hugsanlegum borpalli og flugtíminn ein klukkustund og 33 mínútur. Brönnöysund er sá staður í Noregi sem styst er að fara til, þúsund kílómetrar, sem þýddi fimm tíma flug á þyrlu.

Á Jan Mayen er hins vegar aðeins fámenn veðurathugunarstöð og fábreytt mannvirki auk þess sem norsk stjórnvöld hafa friðlýst eyjuna. Því verður að telja ólíklegt að þar verði lagt í miklar framkvæmdir vegna olíuleitar og því má ætla að Norðmenn standi frammi fyrir því að velja að fara 310 kílómetra til Íslands eða þrefalt lengri leið til Noregs.

Sá flugvöllur sem næstur er svæðinu er við Þórshöfn á Langanesi og þar hafa sveitarstjórnarmenn áttað sig á tækifærunum. Langanesbyggð sendi Skipulagsstofnun í sumar endurnýjaða skipulagstillögu sem gerir ráð fyrir stækkun Þórshafnarflugvallar og stórskipahöfn í Gunnólfsvík, ásamt lóðum undir olíu- og gasvinnslustöðar.


Tengdar fréttir

Norðmenn setja milljarða í að undirbúa olíuvinnslu við Jan Mayen

Norsk stjórnvöld áforma að verja nærri þremur milljörðum íslenskra króna, 130 milljónum norskra króna, á næsta ári til að undirbúa tvö ný svæði til olíuvinnslu. Þetta eru Jan Mayen-svæðið og sá hluti Barentshafs sem er vestan lögsögumarkanna við Rússland. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Noregs fyrir árið 2013 sem nú er til umfjöllunar í Stórþinginu. Í fréttatilkynningu olíu- og orkumálaráðuneytisins segir að áætlað sé að nota fjármunina til kortlagningar, hljóðbylgjumælinga og annarra jarðfræðirannsókna á umræddum hafsvæðum. Fyrir áform íslenskra stjórnvalda að opna Drekasvæðið til olíuvinnslu teljast það góð tíðindi hversu þunga áherslu Norðmenn ætla að leggja á Jan Mayen-svæðið.

Áætlar fyrsta borpallinn við Jan Mayen árið 2017

Olíustofnun Noregs áætlar í nýrri skýrslu að verðmæti olíu- og gaslinda við Jan Mayen geti verið þrettán þúsund milljarðar króna og að hreinn hagnaður af vinnslunni geti numið allt að níu þúsund milljörðum. Norðmenn gera ráð fyrir að fyrsti borpallurinn verði kominn á svæðið árið 2017. Eyfirðingar fundu smjörþefinn í sumar af þeim umsvifum sem Norðmenn hafa sett í gang á hafsvæðunum norðaustan Íslands þegar floti rannsóknarskipa kom til Akureyrar til áhafnaskipta og til að sækja vistir og þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×