Tíska og hönnun

Setja nýja línu af hálsfestum á markað í dag

Systurnar Kristín og Áslaug Friðriksdætur.
Systurnar Kristín og Áslaug Friðriksdætur.
Vörulínan City Collection verður kynnt til sögunnar í dag klukkan 17 í verslun GK á Laugaveginum. Um er að ræða nútímalegar, grafískar og litríkar hálsfestar gerðar úr efnum tengdum borgarmenningu.

Systurnar Kristín og Áslaug Friðjónsdætur höfðu oft talað um það að vinna saman. Síðastliðið vor létu þær verða af því og hafa þær nú hannað skartgripalínu undir nafninu Twin Within - Creative Jewelry sem seld verður í verslun GK á Laugaveginum og á heimasíðu þeirra twinwithin.com.

"Þetta byrjaði allt á því að Áslaug systir, sem er myndlistarmaður, var að leita sér að efni í innsetningu sem hún var að vinna að. Hún fór á milli báta- og veiðibúða í leit að mismunandi efnum og sá þar alls kyns kaðla og slöngur sem hún fór svo að prufa sig áfram með," segir Kristín, sem er hönnuður.

Kristín hefur starfað sem víóluleikari og verið viðloðandi tískugeirann en systir hennar er myndlistarmaður, búsett í Seattle. "Áslaug sýndi mér hugmyndir á Skype og þegar hún kom heim síðasta sumar þróuðum við heila vörulínu sem samanstendur af hálsfestum og kallast City Collection."

Frumsýningarteiti Twin Within verður í verslun GK á Laugaveginum í dag frá 17 til 20. Hægt er að kynna sér atburðinn nánar hér á Facebook.

"Kanilsnældur munu sjá um að þeyta skífum og léttar veigar verða í boði. Þá verðum við með sérstakt opnunartilboð á hálsfestunum."

Hér eru systurnar Áslaug og Kristín Friðjónsdætur á verkstæðinu að útbúa hálsfestarnar, sem allar eru handgerðar. Mynd/Anton
Hálsfestarnar eru afar nútímalegar, grafískar og litríkar. Þær eru gerðar úr efnum tengdum borgarmenningu og litirnir minna jafnvel á borgarljós og næturlíf.

Festarnar eru skírðar eftir nokkrum af þekkustu borgum heimsins; Ríó, Róm, Moskvu, París, Kaíró, Madrid, Helsinki og Berlín. Hálsfestarnar vísa þó líka til frumbyggja.

"Innblásturinn sóttum við meðal annars í frumbyggjamenningu og heimsmenningu, bæði hvað varðar útlit og vinnslu. Skartgripir mismunandi ættbálka eru oft gerðir úr efnum sem þeir sækja af sínu nærsvæði og það má kannski segja að við séum að gera það sama."

Hálsfestin Róm. Hálsfestarnar sækja nöfn sín til margra þekktustu borga heims og eru gerðar úr efnum tengdum borgarmenningu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.