Innlent

Stjúpu Matthíasar komið í skjól - sá hættulegasti sem hefur strokið í mörg ár

Þessi mynd var tekin af Matthíasi Mána þann 6. janúar síðastliðinn.
Þessi mynd var tekin af Matthíasi Mána þann 6. janúar síðastliðinn.

Stjúpu mannsins, sem strauk af Litla-Hrauni í dag, hefur verið komið í skjól, en það var gert mjög fljótlega eftir að upp komst um flóttann. Maðurinn sem flúði heitir heitir Matthías Máni Erlingsson og er 24 ára gamall. Hann var dæmdur á dögunum fyrir tilraun til manndráps þegar hann réðst á stjúpmóður sína og veitti henni alvarlega áverka meðal annars með kertastjaka.



Samkvæmt heimildum fréttastofu er stjúpa mannsins talin í raunverulegri hættu vegna flótta Matthíasar. Þá er Matthías flokkaður sem mjög hættulegur maður, sem er efsta stig ákveðinnar skilgreiningar sem fangelsismálastofnun og lögregla notast við, en slíkt hefur ekki komið fyrir á Litla-Hrauni í fjölmörg ár samkvæmt heimildum.



Ekki er ljóst hvernig Matthías strauk en núna er það rannsakað hvort hann hafi klifrað yfir girðingu í fangelsisgarðinum. Mikill viðbúnaður er vegna flótta Matthíasar, lögreglan leitar að honum auk þess sem búið er að gera landamæravörðum viðvart um flótta hans.



Matthías er 171 sentímetri á hæð, um 70 kílógrömm og grannvaxinn. Hann var íklæddur grárri hettupeysu, með svarta prjónahúfu á höfði, í dökkum buxum.



Vísbendingar eru um að hann hafi fengið far á Selfoss um kl. 13:30 í dag, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni. Það hefur hinsvegar ekki fengist staðfest og því óskar lögreglan eftir öllum upplýsingum sem tengst geta stroki hans. Sími lögreglu er 480 1010.


Tengdar fréttir

Fangi strauk af Litla-Hrauni

Fangi strauk af Litla Hrauni um eittleytið í dag. Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um strokið um þrjúleytið og er nú að leita að honum. Lögreglan vildi engar upplýsingar gefa um fangann þegar Vísir spurðist fyrir um málið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×