Fótbolti

Markalaust hjá AC Milan og Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
AC Milan og Barcelona gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Mílanó í kvöld. Barcelona var fyrir leikinn búið að vinna sjö leiki í röð í Meistaradeildinni eða alla leiki sína frá því að Barca og AC Milan gerðu 2-2 jafntefli í fyrsta leik sínum í riðlinum.

AC Milan varð fyrsta liðið í Meistaradeildinni í vetur til þess að halda hreinu á móti Barcelona-liðinu sem var fyrir leikinn búið að skora 30 mörk í 8 leikjum í Meistaradeildinni á leiktíðinni. Barca var ennfremur búið að skora í 30 Evrópuleikjum í röð.

Fyrri hálfleikurinn var mjög fjörugur og bauð upp á fjölda færa hjá báðum liðum en það gerðist mun minna eftir hlé. Barcelona var meira með boltann en AC Milan beit einnig frá sér og átti nokkur góð færi.

AC Milan byrjaði leikinn á stórsókn og fékk tvö dauðafæri strax á þriðju mínútu, fyrst Kevin-Prince Boateng og svo Robinho. Barcelona tók við sér eftir þetta og vildi frá víti á 16. mínútu þegar Christian Abbiati virtist fella Alexis Sánchez innan teigs eftir skemmtilega útfærða aukaspyrnu.

Lionel Messi skoraði á 18. mínútu en var réttilega dæmdur rangstæður og Zlatan Ibrahimovic fékk síðan algjört dauðafæri á 21. mínútu en Victor Valdes varði frá honum. Messi og Xavi spiluðu sig í gegn á 26. mínútu en Abbiati varði vel frá Xavi.

Þrátt fyrir fjölda færa þá tókst liðunum ekki að skora í fyrri hálfleiknum. Seinni hálfleikurinn var síðan mun rólegri, liðin tóku minni áhættu og það færðist meira harka í leikinn. Liðin sættust að lokum á markalaust jafntefli sem voru nokkuð sanngjörn úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×