Handbolti

Auðvelt hjá Ljónunum - Stefán Rafn með 3 mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Nordicphotos/Bongarts
Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen unnu öruggan fimm marka heimasigur á TV 1893 Neuhausen, 30-25, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en þeir voru þarna að mæta þriðja neðsta liði deildarinnar.

Stefán Rafn Sigurmannsson, fyrrum Haukamaður, spilaði þarna sinn annan leik með Ljónunum og skoraði þrjú mörk í leiknum en markahæstu leikmenn liðsins voru Andy Schmid og Zarko Sesum með fimm mörk. Alexander Petersson spilaði ekki í kvöld vegna meiðsla en var á skýrslu.

Rhein-Neckar Löwen var með frumkvæðið frá byrjun og átta mörkum yfir í hálfleik, 18-10, eftir að hafa unnið síðustu 18 mínútur hálfleiksins 12-5. Stefán Rafn skoraði tvö mörk á þessum góða kafla. Sigurinn var síðan aldrei í hættu í seinni hálfleiknum.

Rhein-Neckar Löwen náði með þessum sigri þriggja stiga forskot á Kiel en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar eiga leik inni um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×