Fótbolti

Ís­lands­meistarinn Telma á leið til Skot­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Telma var besti markvörður Bestu deildar kvenna árið 2024.
Telma var besti markvörður Bestu deildar kvenna árið 2024. Vísir/Diego

Telma Ívarsdóttir, markvörður Íslandsmeistara Breiðabliks, er á leið til skoska knattspyrnufélagsins Rangers.

Þetta herma heimildir Vísis en Fótbolti.net greindi fyrst frá. Í frétt miðilsins segir að Telma sé enn að bíða eftir atvinnuleyfi á Bretlandseyjum en þegar það sé komið í hús muni hún halda ytra.

Hin 25 ára gamla Telma hefur komið víða við hér á landi en áður en hún braut sér leið inn í byrjunarliðs Breiðabliks spilaði hún með Fjarðabyggð, Grindavík, Haukum, Augnabliki og FH.

Telma hefur spilað tólf A-landsleiki til þessa en með vistaskiptum hennar þá leika allar þrjár sem berjast um stöðu markvarðar íslenska landsliðsins erlendis. Cecilía Rán Rúnarsdóttir spilar með Inter á Ítalíu – á láni frá Bayern München. Fanney Inga Birkisdóttir var þá nýverið keypt til BK Häcken í Svíþjóð.

Rangers er sem stendur í 2. sæti skosku efstu deildar kvenna með 39 stig að loknum 17 leikjum, sex stigum minna en topplið Glasgow City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×