Menning

Fékk risatilboð frá Sherlock Holmes-fólki

Baltasar Kormákur getur valið úr tilboðum um þessar mundir. nordicphotos/getty
Baltasar Kormákur getur valið úr tilboðum um þessar mundir. nordicphotos/getty
Baltasar Kormákur getur valið úr tilboðum eftir frábært gengi Hollywood-myndarinnar Contraband með Mark Wahlberg í aðalhlutverki og vel heppnaðar sýningar á Djúpinu erlendis.

„Ég er búinn að fá nokkur tilboð eftir sýningar á henni [Djúpinu]. Risatilboð frá Warner Brothers og fleirum, þannig að hún mælist rosalega vel fyrir. Ég er búinn að gera Contraband og menn þekkja mig dálítið. Svo sjá þeir þessa mynd og sjá einhvern annan vinkil,“ segir leikstjórinn. „Þetta er eitthvað sem ég er að skoða, m.a. tilboð frá framleiðandanum að Sherlock Holmes-seríunni um að gera stóra mynd, hugsanlega byrjunina á myndaflokki í svipuðum stíl og Sherlock Holmes-dæmið.“

Djúpið er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Baltasar kveðst renna blint í sjóinn varðandi möguleika myndarinnar á að fá tilnefningu. „Ég hef ekki séð hinar myndirnar. Þetta er eins og að hlaupa í kapp við einhvern sem maður veit ekki hvað hleypur hratt. En ég held í vonina. Það verður gaman ef það tekst.“

Leikstjórinn er staddur í Los Angeles að ljúka við svokallað „director‘s cut“ á spennumyndinni Two Guns með Denzel Washington og Wahlberg í aðalhlutverkum. Um tíu vikna ferli er að ræða þar sem Baltasar púslar myndinni saman og lýkur því núna rétt fyrir jólin. Næsta skref verður að fá viðbrögð fólks við útkomunni. Two Guns er dýrasta myndin sem hann hefur gert í kvikmyndaborginni og kostar um sjö milljarða króna eftir skattaafslátt. Frumsýning er fyrirhuguð 16. ágúst á næsta ári.

Áframhaldandi vinna við Two Guns heldur áfram eftir áramót en að henni lokinni, eða í apríl, ferðast Baltasar til Ungverjalands og Berlínar þar sem hann leikstýrir prufuþætti fyrir nýja sjónvarpsþáttaröð, The Missionary, á vegum sjónvarpsrisans HBO. Benjamin Walker, virtur sviðsleikari í New York, leikur aðalhlutverkið. „Þetta verður spennandi. Það er mjög eftirsótt að komast í þennan þátt og mikið af leikurum að reyna það,“ segir hann.

Að þessu verkefni loknu mun Baltasar líklega leikstýra myndinni Everest sem er sannsöguleg og fjallar um óveður sem klifurmenn lentu í í hlíðum Everest, hæsta fjalli jarðar, árið 1996. Stefnan er að taka hana upp að mestum hluta á Íslandi. Einhverjar tökur verða líka á Everest í Nepal. Baltasar til halds og trausts verður bandaríski fjallagarpurinn David Breashears sem hefur oft farið á topp Everest og unnið sem ráðgjafi við myndirnar Cliffhanger og Seven Years in Tibet. „Hann þekkir þetta eins og lófann á sér.“

Framleiðendur verða Working Title og Universal og stefnir allt í að myndin verði sú dýrasta sem Baltasar hefur tekið sér fyrir hendur. Með skattaafslætti er reiknað með um 7,6 milljarða króna kostnaði.

Núna styttist óðfluga í jólin og aðspurður segist Baltasar ætla að reyna að vera með fjölskyldunni heima á Íslandi yfir hátíðirnar. „Ég er ekkert búinn að vera heima síðan í febrúar, nema nokkrar vikur í kringum frumsýninguna á Djúpinu,“ segir leikstjórinn upptekni.

freyr@frettabladid.is

AFP/NordicPhotos





Fleiri fréttir

Sjá meira


×