Menning

Tæknibrellur leika stóra rullu í nýrri draugamynd

Tökur á nýrri mynd Ágústs Guðmundssonar hefjast í Reykjavík á þriðjudaginn.
Tökur á nýrri mynd Ágústs Guðmundssonar hefjast í Reykjavík á þriðjudaginn.
Nýtísku tæknibrellur verða áberandi í gamansömu draugamyndinni Ófeigur gengur aftur. Tökur á henni hefjast í Reykjavík á þriðjudaginn í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar.

Frekar sjaldgæft er að miklar brellur séu notaðar þegar íslensk kvikmynd er annars vegar. "Nú er komin sú tíð að það er tiltölulega auðvelt að vinna ýmsar tæknibrellur í kvikmyndum og það er mjög freistandi að færa sér það í nyt. Þetta er að nokkru leyti draugasaga og allt í kringum draugana og í kringum ýmsa yfirnáttúrulega viðburði verður unnið með tæknibrellum," segir Ágúst, sem samdi einnig handritið.

Söguþráður myndarinnar er á þann veg að Ófeigur, nýlátinn faðir Önnu Sólar, gengur aftur og fer að hlutast til um líf hennar og kærasta hennar, Inga Brjáns. Unga parið ætlar að selja hús hins látna en Ófeigur er því mótfallinn og vill ekki að þau flytji. Afskiptasemi afturgöngunnar er slík að Ingi Brjánn bregður á það ráð að reyna að kveða drauginn niður með aðferðum sem hann finnur í gamalli galdrabók.

Þórhallur Sigurðsson, Laddi, fer með titilhlutverkið og aðspurðum líst Ágústi vel á samstarfið. "Ég hef unnið með honum áður og það er alltaf jafnskemmtilegt. Laddi er mikill hæfileikamaður og kann ýmislegt fleira fyrir sér en það sem tengist hinum frægu karakterum hans." Með önnur hlutverk í myndinni fara Gísli Örn Garðarsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Sigurður Sigurjónsson og Vignir Rafn Valþórsson.

Frumsýning er fyrirhuguð um páskana, eða í lok mars á næsta ári. "Ég er mjög kátur að vera að byrja á nýrri mynd," segir Ágúst. Átta ár eru liðin síðan hann gerði Stuðmannamyndina Í takt við tímann. Þar áður sendi hann frá sér Mávahlátur. "Þetta er orðinn alltof langur tími. Það fóru reyndar fjögur ár í að vera í forsvari fyrir Bandalagi íslenskra listamanna á sínum tíma, þannig að það dregst frá að einhverju leyti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.