Fótbolti

Botnbarátta blasir við Milan

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mikil vinna bíður Massimiliano Allegri og lærisveina hans hjá AC Milan
Mikil vinna bíður Massimiliano Allegri og lærisveina hans hjá AC Milan MYND / NORDIC PHOTOS GETTY IMAGES
Ítalska stórliðið AC Milan á í miklu vandræðum í upphafi tímabils í ítölsku A-deildinni. Liðið tapaði 2-1 fyrir Udinese í dag og missti tvo leikmenn útaf með rautt spjald.

Milan er í fimmtánda sæti eftir fjóra leiki með þrjú stig.. Liðið hefur tapað báðum heimaleikjum sínum til þessa og lítur liðið vægast sagt illa út og bendir allt til þess að langt og strangt tímabil í óra fjarlægð frá toppbaráttu bíði liðsins.

Þetta var fyrsti sigur Udinese á tímabilinu en liðið er nú með fjögur stig í 13. sæti. Mathias Ranégie skoraði fyrsta mark leiksins á 40. mínútu og staðan í hálfleik 1-0.

Stephan El Shaarawy jafnaði metin á 54. mínútu en 12 mínútum síðar fékk Christian Zapata að líta sitt annað gula spjald fyrir brot á Ranégie í vítateignum. Antonio Di Natale tryggði Udinese sigurinn með marki úr vítaspyrnunni en enn var tími fyrir hag Milan að versna.

Kevin-Prince Boateng braut gróflega af sér á 82. mínútu og fékk að líta sitt annað gula spjald. Þriðja tap Milan í fjórum leikjum staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×