Innlent

Ungbarnaeftirlitið til fyrirmyndar

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra felldi tár yfir bágri stöðu mæðra og kvenna í Gíneu-Bissá og þykir lán að hafa fengið að ganga með tvíburastráka sína hér á landi. Það er engin furða þar sem íslensk börn og mæður þeirra hafa það einna best samkvæmt ársskýrslu Barnaheilla.

Flestir gestir á morgunfundi Barnaheilla voru í yngri kantinum en allir, stórir sem smáir, hafa það gott samkvæmt skýrslunni sem þar var kynnt. Íslensk börn hafa það best allra og íslenskar mæður næst best, en það eru hinar norsku sem verma fyrsta sætið.

Niðurstöðurnar koma Katrínu Júlíusdóttur, sem eignaðist nýverið synina Kristófer Áka og Pétur Loga, ekki á óvart. Hún segist lánsöm að hafa fengið að ganga með börn sín hér á landi enda vel staðið að meðgöngu- og mæðravernd.

„Ég var í áhættumeðgöngu með tvö börn og það var algjörlega framúrskarandi verð ég að segja," segir Katrín.

Þá segir hún ungbarnaeftirlitið jafnframt til fyrirmyndar hér á landi.

Í ræðu sinni í dag vék Katrín að aðstæðum mæðra og barna í þróunarríkjunum en hún heimsótti Gineu-Bissá fyrir nokkrum árum og felldi tár yfir ástandinu þar.

Katrín segir að hún hefði ekki viljað dvelja þar á meðgöngu.

Tvíburarnir hennar Katrínar voru orðnir þreyttir þegar líða tók á viðtalið og farnir að kjökra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×