Innlent

Máney Dís fær iPad og brosir hringinn

Karen Kjartansdóttir skrifar
Hjálpsamir borgarar og félagasamtök brugðust skjótt við í gær eftir að við sögðum fréttir af henni Máney Dís, stúlku sem hefur legið rúmliggjandi á Barnaspítalanum í sumar og látið sig dreyma um iPad til að stytta sér stundir. Hún er nú farin að safna sér fyrir ferðalagi til að fara í þegar hún nær heilsu á ný.

Við sögðum frá því í gær að frá því í byrjun júní hefur hún Máney Dís legið á Barnaspítala Hringsins eða eftir að hún greindist með sjálfsofnæmissjúkdóminn Crohn's. Máney gerði sér grein fyrir því að hún gæti ekki dvalið úti í sólinni með jafnöldrum sínum og fór að búa til skartgripi sér til dægrastyttingar sem hún hefur svo selt því hún er að safna sér fyrir iPad.

Eftir að fréttin fór í loftið höfðu fjölmargir samband og vildu kaupa hálsmen. En dularfullur velgjörðamaður leit einnig við hjá Máney í gær og afhenti henni pening.

Hún segist ekkert vita hvaða maður þetta sé. Hann hafi bara sagst vilja veita henni styrk og rétt henni pening. Hún hafi þakkað fyrir sig og hann því næst farið, þá hafi hún fyrst séð að hann hafði rétt henni 50 þúsund krónur.

Máney er því komin með næga peninga til að kaupa sér iPad en góðviljað fólk í Garðinum hefur hins vegar ákveðið að sjá um þau kaup. Dagbjört Hildur Torfadóttir, móðir Máneyjar, segir að Ásmundur Friðriksson, fyrrverandi bæjarstjóri í Garði, hafi sent sér póst eftir fréttina og sagt að hann væri í forsvari fyrir viðburð sem kallaður er Skötumessa og er ætlað að styrkja fötluð og veik börn.

„Þeir vilja gefa Máney iPad og hún brosti hún að eyrum þegar hún heyrði af þessu og við pabbi hennar eigum að mæta annað kvöld og taka við honum," segir Dagbjört Hildur. En gjöf Skötumessufólks er gefin í samstarfi við fyrirtækið Omnis.

Skartgripirnir hennar Máneyjar eru til sölu á fésbókarsíðu móður hennar Dagbjartar Hildar Torfadóttur og þá geta áhugasamir einnig nálgast þá með því að senda póst á netfangið dagbjorth@ru.is.

Máney hefur því ákveðið að byrja að safna fyrir nýjum hlut sem hún stefnir á þegar hún nær heilsu á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×