Fótbolti

Messi fékk Gullboltann þriðja árið í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi tók við Gullbolta FIFA í kvöld.
Lionel Messi tók við Gullbolta FIFA í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Argentínumaðurinn Lionel Messi var í kvöld útnefndur knattspyrnumaður ársins af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, sem veitir verðlaunin í samstarfi við France Football.

Þetta er í þriðja sinn í röð sem Messi fær þessa viðurkenningu og er Messi aðeins fjórði leikmaðurinn frá upphafi sem afrekar það. Hann er þó aðeins 24 ára gamall og því líklegt að fleiri Gullboltar eigi eftir að bætast í safnið á næstu árum.

Xavi, liðsfélagi Messi hjá Barcelona, varð annar í kjörinu og Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, í því þriðja. Þetta er í þriðja árið í röð sem þessi tvö félög eiga efstu þrjá í kjörinu.

„Hann er enn ungur - aðeins 24 ára gamall - og ég held að hann eigi eftir að bæta öll met sem eru til í þessari íþrótt," sagði Xavi í kvöld. „Hann verður einn besti knattspyrnumaður sögunnar."

Barcelona á fimm leikmenn í liði ársins, Real Madrid fjóra og Manchester United tvo. Pep Guardiola, stjóri Börsunga, var valinn þjálfari ársins og Brasilíumaðurinn Neymar fékk Puskas-verðlaunin fyrir mark ársins.

Hjá konunum var hin japanska Homare Sawa leikmaður ársins og Norio Sasaki, landsliðsþjálfari Japan, þjálfari ársins. Hann stýrði Japönum til sigurs á HM í knattspyrnu í sumar. Japanska knattspyrnusambandið fékk prúðmennskuverðlaun FIFA.

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, fékk forsetaverðlaun FIFA fyrir framlag sitt til íþróttarinnar.

Lið ársins: Iker Casillas (Real Madrid), Dani Alves (Barcelona), Gerard Pique (Barcelona), Sergio Ramos (Real Madrid), Nemanja Vidic (Man Utd), Andres Iniesta (Barcelona), Xabi Alonso (Real Madrid), Xavi (Barcelona), Lionel Messi (Barcelona), Cristiano Ronaldo (Real Madrid), Wayne Rooney (Man Utd).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×