Innlent

Annie Mist í góðri stöðu fyrir helgina

BBI skrifar
Sem stendur er Annie Mist Þórisdóttir í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu Reebok CrossFit Games sem hófst á miðvikudaginn. Staða hennar lítur vel út fyrir helgina en að sögn rúllaði hún síðustu þraut dagsins í gær upp með einstökum sóma.

Síðan á miðvikudaginn hafa keppendur tekið þátt í ýmsum þrautum og leikunum lýkur á sunnudag. Sautján íslenskir keppendur taka þátt í mótinu. Þar af má nefna Hilmar Harðarson sem keppir í svokölluðum meistaraflokki karla frá 55-59 ára. Þar er hann í fjórða sæti sem verður að teljast mjög góður árangur.

Af Íslendingunum er þó Annie Mist skærasta stjarnan og miklar vonir bundnar við hana enda sigraði hún á mótinu í fyrra. Eftir fyrstu þrautirnar á miðvikudag og föstudag leit staðan ekki sérlega vel út fyrir Annie og á tímabili leit út fyrir að keppinautar hennar myndu stinga hana af. En með því að „hreinlega rústa" síðustu þraut dagsins í gær vann hún upp forskot keppinauta sinna og skaut sér upp í þriðja sæti. Staða hennar er því góð fyrir helgina.

Sá sem stendur uppi sem sigurvegari á mótinu hlýtur nafnbótina „fittest on earth" sem þýðir hraustastur/hraustust á jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×