Fótbolti

Fór hann yfir línuna? - dómari og línuvörður ósammála

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Daníel
Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar þeirra í LdB Malmö töpuðu sænska meistaratitlinum á markatölu í dag og það er enn meira svekkjandi fyrir íslensku landsliðskonurnar að þær töldu sig hafa skorað jöfnunarmark í úrslitaleiknum á móti Tyresö sem hefði tryggði Malmö-liðinu titilinn.

Madelaine Edlund skoraði sigurmark Tyresö á 81. mínútu en á lokamínútum leiksins reyndi Malmö-liðið allt til þess að jafna og það virtist takast tveimur mínútum fyrir leikslok.

Elin Rubensson, leikmaður Malmö, átti þá fyrirgjöf sem markvörður Tyresö varði út úr markinu. Aðstoðardómarinn, sem var næst atvikinu, dæmdi mark en dómarinn Jenny Palmqvist var ekki sammála henni.

Jenny Palmqvist og aðstoðardómarar hennar funduðu í nokkrar mínútur og ákváðu síðan að boltinn hafi aldrei farið yfir línuna. Markið var því dæmt af og nokkrum mínútum síðast fögnuðu leikmenn Tyresö meistaratitlinum.

Peter Moberg, þjálfari LdB Malmö, var ósáttur eftir leik og talaði um að Svíar þyrftu að eignast betri dómara. Hann skilur ekki tilganginn með aðstoðardómurum ef aðaldómari leiksins treystir þeim síðan ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×