Innlent

Ætlar aldrei að fyrirgefa séra Georg

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kona sem séra Georg, skólastjóri Landakotsskóla, byrjaði að níðast á þegar hún var níu ára, fagnar skýrslu Rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar þó hún hafi blendnar tilfinningar til efnis hennar. Hún er nokkuð viss um að séra Georg er ekki í himnaríki.

Iðunn Angela greindi opinberlega frá misnotkuninni í Fréttatímanum í fyrra. Ofbeldið stóð yfir í þrjú ár. Hún segist hafa verið tekin út úr tímum til að skólastjórinn gæti káfað á henni. Iðunn fékk fregnir af skýrslunni í gær.

„Það voru svona blendnar tilfinningar. Auðvitað var ég ánægð, en ég kveið rosalega að lesa hana. Ég byrjaði að lesa hana, ég kláraði það ekki, ég treysti mér ekki til þess."

Í skýrslunni er meðal annars að finna vitnisburð átta manns sem voru beittir kynferðislegu ofbeldi af séra Georg, og sum hver einnig af Margréti Muller.

„Þetta breytir heilmiklu fyrir mig. Ég náttúrulega burðast með þetta frá því ég byrja í skólanum, átta ára, þó sjálft kynferðislega ofbeldið hafi ekki byrjað fyrr en ári seinna, en guð minn góður ég var níu ára þegar þetta byrjar. Ég hef svo oft minnst á þetta. Ég talaði um þetta við alla presta, ég talaði um þetta við nunnur, pabbi fór og ræddi við biskupinn á sínum tíma, það hlustaði enginn. Nú einhvern veginn finnst mér ég geta sagt: ég sagði ykkur þetta. Þetta gerðist."

Hún er enn kaþólsk þó hún hafi ekki alið börnin sín upp í kaþólskum sið.

„Ég hugsa að hann hafi eyðilagt æði margt. Hann eyðilagði trúna mína mikið frekar á fullorðið fólk. En honum tókst ekki að eyðileggja trúna mína enda kemur þetta trúnni raunverulega ekkert við."

Iðunn segir að hún hafi alltaf verið hvött til að fyrirgefa séra Georg, en það geri hún aldrei.

„Mig langar ekki til þess, mér finnst engin ástæða til þess. Það er nú talað um himnaríki og helvíti og ég er nú nokkuð viss um hvoru megin hann er og það svona gefur mér smá ró."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×