Innlent

Bið hælisleitenda löng og kostnaðarsöm

Karen Kjartansdóttir skrifar
Forstjóri Útlendingastofunar segir hælisleitendur þurfa að bíða næstum þrisvar sinnum lengur en forsvaranlegt sé. Löng bið kosti samfélagið mikið fé auk þess sem biðin skapi mikla vanlíðan meðal fólks. Á þessu ári hafi orðið veruleg fjölgun meðal hælisleitenda og fyrirséð að biðin lengist enn.

Málsmeðferð hælisleitendana tekur orðið um 15 mánuði í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Kristín Völdundardóttir, forstjóri stofnunarinnar, segir að til að biðin teljist forsvaranleg eigi hún að vera hálft ár eða styttri.

86 hælisleitendur bíða nú afgreiðslu sinna mála langflestir þeirra eru í vistun á gistiheimilinu Fit í Reykjanessbæ.

Af þeim komu 50 þeirra í fyrra og 10 komu 2010 eða 2009 .

Veruleg fjölgun hefur orðið í ár en nú þegar hafa 26 sótt um hæli en á sama tíma höfðu 16 sótt um hæli.

Þá hafa fimm vegalaus börn komið hingað ein síns liðs í ár. Þeirra mál eru sett í forgang en það þýðir aftur á móti að aðrir færast aftur í röðina.

Langur málsmeðferðartími getur haft slæm áhrif á líðan umsækjanda sem margir hverjir hafa þegar gengið í gegnum miklar raunir. Biðin getur líka orðið til þess að umsækjendur einangrast frekar og aðlögun að íslensku samfélagi gengur verr fái þeir hæli.

Þá má geta þess að veruleg fjölgun hefur orðið á dómum yfir hælisleitendum sem hingað koma með fölsuð vegabréf. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun voru dómar vegna þessa árið 6 talsins árið 2003, 2007 voru þeir 8 og 2011 voru þeir 36. Þessi þróun hefur í för með sér aukið álag á dómskerfi og fangelsi.

Forstjóri Útlendingastofnunar bendir auk þess á að löng bið skapi mikinn kostnað fyrir samfélagið.

Kostnaður vegna hvers hælisleitanda er bundin í vísitölu neysluverð og nemur nú 7.155 á dag.

Meiri kostnaður fellur til vegna umönnunar barna en fullorðinna. Þannig má gera ráð fyrir því að kostnaður sem hlýst af fjögurra manna fjölskyldu sé 860 þúsund krónur á mánuði 10,3 miljónir á ári.

Hún segir að þó starfsmenn Útlendingastofunar séu allir að vilja gerði ráði þeir ekki við fjöldann og því aukist biðin samhliða fjölgun hælisleitenda.

Spurð hvað stöðugildi lögfræðings kosti á ári með orlofi og launatengdum gjöldum segir hún það vera 6,6 miljónir.

Með hverjum reyndum lögfræðingi sé hægt að hraða málsmeðferð um 30 prósent. Ef gengið er út frá fjölda síðasta árs myndi hver lögfræðingur stytta málsmeðferðarhraða um þrjá til fjóra mánuði sem þýði að með tveimur lögfræðingum til viðbótar næðist að halda málsmeðferð innan 6 mánaða tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×