Menning

Vantar fjögur hundruð hross

Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson
Framleiðendur kvikmyndarinnar Hross eftir Benedikt Erlingsson hafa auglýst eftir fjögur hundruð hrossum og eitt hundrað manns fyrir tökur á stóru atriði þar sem stóðréttir verða endurvaktar í Þverárrétt í Borgarfirði.

"Þetta er mikil söguflétta þar sem allir þræðir myndarinnar fara saman í einn hnút sem eru stóðréttir," segir leikstjórinn Benedikt Erlingsson um atriðið. "Við þurftum að hverfa frá Skagafirði því við erum ekki með eins mikinn pening og Ben Stiller og ætlum að gera þetta í Þverárrétt 8. september. Við erum að vona að sveitungar hér sem hafa reynst okkur velviljaðir og hliðhollir vilji koma og leggja til hross og sjálfa sig kannski í períódubúningi frá því þegar maður var upp á sitt besta um 1985."

Tökur á Hrossi hafa verið í gangi í Borgarfirði síðan 13. ágúst. "Þetta hefur tekist algjörlega stóráfallalaust með mikilli hjálp náttúruaflanna. Það hafa ekki nema tveir leikarar dottið af baki enn sem komið er og hestarnir leika mjög vel. Það er ótrúlegt hvað þeir eru agaðir," segir Benedikt. Hross verður frumsýnd hér á landi haustið 2013.

"Þetta er mynd um mennskuna í hestinum og dýrið í manneskjunni. Það er mikil hestasálfræði í þessu öllu saman."

Meðal leikara verða Ingvar E. Sigurðsson, Charlotte Bøving, Halldóra Geirharðsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Kjartan Ragnarsson, Vilborg Halldórsdóttir og Helgi Björnsson.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×