Tæplega 2,5 milljarða króna hagnaður var af rekstri Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og dótturfélaga þess á árinu 2011. Samtals hefur félagið hagnast um sjö milljarða króna á síðustu þremur árum. Þetta kemur fram í ársreikningi KS sem skilað var inn til ársreikningaskrár fyrr í þessum mánuði.
Eiginfjárstaða KS er gríðarlega góð, en eigið fé þess er 17,8 milljarðar króna. Þar af nemur handbært fé um 5,3 milljörðum króna. Skuldir KS lækkuðu í fyrra um 1,2 milljarða króna og stóðu í 11,6 milljörðum króna um síðustu áramót. Eignir félagsins voru metnar á 29,4 milljarða króna á sama tíma. Dótturfélög KS reka útgerð og fiskvinnslu á Sauðárkróki, Skagaströnd og í Grundarfirði. Auk þess reka þau eignarhalds- og vöruflutningastarfsemi og fóður- og áburðarsölu.
Eitt dótturfélaganna, FISK Seafood, komst í fréttir fyrr á þessu ári þegar það ákvað, ásamt útgerðarrisanum Samherja, að leggja Olís til nýtt hlutafé. Fréttablaðið greindi frá því í apríl síðastliðnum að hlutafé í Olís hefði verið lækkað um 75 prósent í febrúar 2012 en síðan hækkað samstundis aftur um sama magn. Í fréttinni var haft eftir Einari Benediktssyni, forstjóra Olís, að hið nýja hlutafé, sem FISK Seafood og Samherji greiddu inn að mestu, yrði ekki greitt fyrr en Samkeppniseftirlitið hefði lagt blessun sína yfir aðkomu hinna nýju hluthafa. Sú ákvörðun liggur enn ekki fyrir en forsvarsmenn Olís bjuggust upphaflega við henni um miðbik júní síðastliðins.
Í ársreikningi KS-samstæðunnar kemur fram að bundnar bankainnstæður hennar nemi einum milljarði króna og að þær séu „innstæður inni á vörslureikningi í Landsbankanum vegna skuldbindingar FISK Seafood hf. vegna fyrirhugaðrar hlutafjárkaupa í Olís hf.".
Kaupfélagsstjóri KS er Þórólfur Gíslason. - þsj
Viðskipti innlent