Fótbolti

Þóra hélt hreinu og Sara skoraði sigurmarkið þegar Malmö vann Frankfurt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þóra Björg Helgadóttir átti mjög góðan leik í markinu og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði sigurmarkið þegar LdB Malmö vann þýska liðið 1. FFC Frankfurt 1-0 í fyrri leik liðanna í í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Seinni leikur liðanna fer fram í Þýskalandi í næstu viku.

Þóra sýndi mikið öryggi í markinu allan tímann og varði alls níu skot frá leikmönnum Frankfurt en mörg þeirra komu úr góðum færum. Frankfurt  pressaði mikið sérstaklega þegar leið á leikinn en Þóra og félagar í vörn LdB Malmö héldu út og unnu mikilvægan sigur.

Sara Björk skoraði eina mark leiksins á 25. mínútu eftir að hafa fengið langa sendingu fram völlinn. Sara hafði betur en varnarmaður Frankfurt, lagði fyrir sig boltann og skoraði laglega framhjá markverði Frankfurt. Sara Björk spilar vanalega á miðjunni en spilaði að þessu sinni í sókninni og sýndi sannkallaða framherjatakta í þessu marki.

Sara Björk var þarna að skora sitt fimmta mark í Meistaradeildinni á þessu tímabili og hún er í hópi markahæstu leikmanna keppninnar. Þóra hélt hreinu í öðrum leiknum í röð í Meistaradeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×