Menning

Unglingsárin eru gott yrkisefni

sigridur@frettabladid.is skrifar
Sara og Mats Höfundar metsölubókarinnar Hringsins sem nýverið kom út á íslensku. Fréttablaðið/Vilhelm
Sara og Mats Höfundar metsölubókarinnar Hringsins sem nýverið kom út á íslensku. Fréttablaðið/Vilhelm
Bókin Hringurinn eftir Söru B. Elfgren og Mats Strandberg gerist í sænska smábænum Engelfors. Þar er ekki allt sem sýnist, unglingsstúlkur sem koma hver úr sinni áttinni eru leiddar saman og í ljós kemur að þær eru nornir.

Sara og Mats halda bæði mikið upp á fantasíur og fljótlega eftir að hugmynd kviknaði hjá þeim að skrifa saman bók afréðu þau að hún yrði að vera fantasía.

„Okkur langaði bæði til að gera eitthvað nýtt,“ segir Mats sem hafði skrifað skáldsögur. Fljótlega eftir að vinskapur tókst með honum og Söru, sem var handritshöfundur, kviknaði sú hugmynd hjá þeim að vinna saman.

„Við vissum bæði að við vildum skrifa um unglinga. Unglingsárin eru að mörgu leyti svo tilvalið yrkisefni, í menntaskóla ertu enn umkringdur fólki sem þú átt kannski ekki svo mikið sameiginlegt með. Og það skapar skemmtilega dýnamík,“ segir Sara.

„Og það kom ekki annað til greina en að láta bókina gerast í smábæ. Ég er sjálfur frá smábæ og var ansi hugsandi yfir því hvað smábæir í sænskum bíómyndum og bókum er oft fallegir og fullkomnir, okkur langaði að sýna eitthvað annað,“ bætir Mats við.

Úr varð að skrifa fantasíubók þar sem aðalsöguhetjurnar, sex unglingsstúlkur, komast að yfirnáttúrulegum kröftum sínum og því að þær eru nornir. „Það er ekki mikil hefð fyrir því í Svíþjóð að skrifa fantasíur en við vildum skrifa þannig bók,“ segir Mats. „Já, og ákváðum enn fremur að skrifa þrjár þykkar bækur, 500 síður hverja,“ segir Sara og hlær.

Með þessa hugmynd að vopni, 100 síður á blaði og útdrátt úr afgang sögunnar leitaði umboðsmaður þeirra eftir útgáfusamningi. Skemmst er frá því að segja að sú ferð gekk vel, samningi var landað og fyrsta bókin, Hringurinn, kom út í Svíþjóð í fyrra. Í vor kom út önnur bókin í þríleiknum, Eldurinn, og á næsta ári er sú þriðja væntanleg.

Sú fyrsta er nýútkomin í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Hringurinn sló í gegn í Svíþjóð, seldist í yfir 200.000 eintökum og hefur útgáfurétturinn verið seldur til yfir tuttugu landa. Mats og Sara segja mjög gaman hversu vel bókinni hefur verið tekið.

„Við skrifuðum bók sem okkur langaði sjálf til að lesa, við höfum sjálf legið í fantasíubókum og fannst tími til kominn að skrifa þannig bækur í Svíþjóð. Okkur langaði líka að skrifa um öðruvísi söguhetjur en eru iðulega í þessum bókum í Bandaríkjunum, sætar stelpur og myndarlegir strákar.“

Bækurnar hafa þau skrifað í algjörri samvinnu, hvernig gengur það fyrir sig? „Við skiptum með okkur köflum og lesum svo yfir hvort hjá öðru, það gengur bara ótrúlega vel,“ segja þau að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.