Fótbolti

PSG með risatilboð í Zlatan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá því að franska knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain hafi gert 40 milljóna evru boð eða sem nemur sex og hálfum milljarði íslenskra króna í sænska framherjann Zlatan Ibrahimovic hjá AC Milan.

Forráðamenn beggja félaga neita því að nokkur ákvörðun hafi verið tekin. Sænski fjölmiðillinn heldur þessu þó staðfastlega fram og vitnar í ónafngreindan heimildarmann hjá ítalska liðinu.

Zlatan er samningsbundinn ítalska félaginu til ársins 2014. Nýverið bárust einnig fréttir þess efnis að honum hefði verið úthlutað treyju númer tíu fyrir næstu leiktíð. Því koma fréttirnar nokkuð á óvart. Fjárhagserfiðleikar Milan eru nefndir sem helsta ástæða þess að Zlatan gæti verið á förum en sömuleiðis erfið samskipti hans við knattspyrnustjórann Massimiliano Allegri.

Sterk tengsl eru milli AC Milan og franska liðsins. Carlo Ancelotti, sem gerði AC Milan meðal annars að Evrópumeisturum árið 2007, er knattspyrnustjóri franska liðsins. Þá er Brasilíumaðurinn Leonardo, fyrrum leikmaður og stjóri AC Milan, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG.

Óvíst er talið að Zlatan lítist á vistaskiptin. Bæði er franska deildin ekki meðal þeirra stærstu í Evrópu auk þess sem talið er að hann myndi lækka í launum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×