Fótbolti

Birkir lék allan leikinn í stórtapi á San Siro

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason Nordic Photos / AFP
AC Milan skellti Pescara 4-1 á heimavelli sínum í ítölsku A-deildinni í dag. Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Pescara og lék allan leikinn en yfirburðir Milan í leiknum voru miklir.

Milan fékk sannkallað óskabyrjun þegar Antonio Nocerino skoraði eftir rétt rúmlega hálfrar mínútu leik og þrátt fyrir mikla yfirburði Milan var ekki skorað meira í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst með látum. Birkir Bjarnason fékk gott færi eftir tveggja mínútna leik en Marco Amelia varði ágætan skalla Birkis vel.

Elvis Abbruscato varð fyrir því áfalli að skora sjálfsmark á 51. mínútu og kom Milan í 2-0 en aðeins fimm mínútum síðar minnkaði Christian Terlizzi muninn fyrir Pescara.

Pescara skoraði annað sjálfsmark á 79. mínútu þegar Brasilíumaðurinn Jonathas skallaði boltann í eigið net án þess að vera undir nokkurri pressu.

Tveimur mínútum síðar gerði hinn tvítugi Stephan El Shaarawy út um leikinn með 14 marki sínu í 17 leikjum á leiktíðinni.

Milan er sem fyrr í 7. sæti deildarinnar en er komið í 27 stig. Pescara er í fallsæti, 18. sæti deildarinnar, með 14 stig í 17 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×