Menning

Mamman skrifar og sonurinn teiknar

Þegar Sigrún Elsa fann drög að sögu sem hún hafði skrifað í barnaskóla ákvað hún að ljúka við hana. Þá lá beint við að biðja soninn, verðandi myndlistarnemann, um að myndskreyta.
Þegar Sigrún Elsa fann drög að sögu sem hún hafði skrifað í barnaskóla ákvað hún að ljúka við hana. Þá lá beint við að biðja soninn, verðandi myndlistarnemann, um að myndskreyta.
Mæðginin Sigrún Elsa Smáradóttir og Smári Rúnar Róbertsson gáfu út sína fyrstu bók á dögunum, barnabókina Söguna af huldufólkinu á eldfjallaeyjunni. Sigrún Elsa samdi söguna en Smári Rúnar myndskreytti.

Þegar mannfólk strandar skipi sínu við huldubyggð á eldfjallaeyju verður uppi fótur og fit. Huldufólkið hefur heyrt ýmislegt misjafnt um mannfólkið og leggur á ráðin um að stökkva þeim burt. Ráðabruggið fer þó öðruvísi en til stóð með afdrifaríkum afleiðingum.

Svo hljóðar söguþráðurinn í Sögunni af huldufólkinu á eldfjallaeyjunni eftir mæðginin Sigrúnu Elsu Smáradóttur og Smára Rúnar Róbertsson. Sagan átti sér langan aðdraganda en Sigrún Elsa skrifaði fyrsta uppkastið að henni í barnaskóla.

"Sagan kom aftur í leitirnar þegar ég var taka til uppi á háalofti árið 2010," segir hún. "Ég las hana og sá ýmislegt skemmtilegt í henni, til dæmis ástir eldfjalla og fleira. Þetta sat í mér og ári síðar ákvað ég að reyna að tengja þessar hugmyndir saman og í heildstæða sögu. Vorið 2011 settist ég niður og byrjaði að skrifa."

Sigrún Elsa segir það hafa legið nokkuð beint við að leita til Smára Rúnars sonar síns til að myndskreyta söguna, en hann var á leið í listnám til Amsterdam sama haust. "Hann vann því að teikningum fyrir bókina um sumarið."

Samstarfið gekk vel að sögn Sigrúnar. "Við fórum yfir það í sameiningu hvernig anda við vildum hafa í bókinni, köstuðum á milli okkar hugmyndum og ræddum þær fram og til baka. Þetta hefur eflaust styrkt sambandið enn frekar á milli okkar ef eitthvað er."

Söguefnið stendur þeim mæðginum nærri því bæði fæddust þau í Vestmannaeyjum; Sigrún var nýfædd þegar gaus í Heimaey og flúði yfir á meginlandið með foreldrum sínum á meðan það gekk yfir en eftir gos flutti fjölskyldan aftur til eyja.

"Askan var manni stöðug áminning um gosið. Ég hef líka alltaf haft áhuga á óútskýrðum hlutum; ég ólst upp í gömlu húsi þar sem hlutir voru alltaf að hverfa og dúkka síðan upp á stöðum þar sem var búið að þaulleita. Við gengum út frá því að við værum með húsálfa heima! Það var því sjálfsagt engin tilviljun að ég ákvað að skrifa sögu um huldufólk á eldfjallaeyju."

Auk þess að myndskreyta bókina braut Smári Rúnar hana um og til að myndirnar fái að njóta sín sem best eru sumar síðurnar með innbrotnum flipa fyrir textann.

"Mér finnst þetta í aðra röndina vera listaverkabók," segir Sigrún Elsa. "Það er öðruvísi upplifun að lesa barnabók með svona myndum. Enda hugmyndin að gera skemmtilega bók sem fullorðnir og börn geta notið að lesa saman."

Sigrún Elsa segir það koma vel til greina að skrifa fleiri bækur.

"Við ætlum að sjá hvernig viðtökur þessi fær áður en við ákveðum nokkuð en ég er búinn að gera drög að annarri sögu. Þetta var að minnsta kosti það skemmtilegt að við erum til í meira."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×