Fótbolti

Milan eltir Juventus eins og skugginn - Zlatan með tvö

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Zlatan kemur Milan á bragðið.
Zlatan kemur Milan á bragðið. Nordic Photos / Getty Images
Zlatan Ibrahimovic skoraði tvö mörk þegar AC Milan lagði botnlið Novara 3-0 á útivelli í Serie A á sunnudag. Grannarnir í Inter halda áfram að klóra í bakkann eftir hræðilega byrjun á tímabilinu en liðið lagði Lazio 2-1 á San Siro í gærkvöld.

Milan þurfi framlengingu til þess að slá Novara út úr bikarnum í vikunni. Novara, sem vermir botnsæti deildarinnar, hélt aftur af gestunum fam í síðari hálfleik en þá brustu flóðgáttirnar. Zlatan Ibrahimovic skoraði tvö og Robinho eitt fyrir Milan sem er stigi á eftir Juventus í öðru sæti deildarinnar.

Udinese heldur áfram að koma á óvart og situr í þriðja sætinu tveimur stigum á eftir Milan eftir 2-1 heimasigur á Catania. Pablo Armero og hinn síheiti Antonio Di Natale skoruðu mörk heimamanna. Di Natale er markahæstur í deildinni með 13 mörk, marki meira en Zlatan.

Lærisveinar Claudio Ranieri hjá Inter lentu í kröppum dansi gegn Lazio í gærkvöld. Tommaso Rocchi kom gestunum frá Rómarborg yfir en Argentínumaðurinn Diego Milito jafnaði skömmu fyrir hlé. Giampaolo Pazzini sá til þess að Inter fengi stigin þrjú með marki um miðjan síðari hálfleik.

Að lokum náði Napoli aðeins í stig á heimavelli með 1-1 jafntefli gegn Siena. Úrúgævinn Edinson Cavani í liði Napoli misnotaði vítaspyrnu í leiknum.



Stöðuna í ítölsku deildinni má sjá hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×