Menning

Frábært að fá svona góða dóma

Kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpið, fær góða dóma eftir að hún var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto.
fréttablaðið/anton brink
Kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpið, fær góða dóma eftir að hún var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. fréttablaðið/anton brink
Kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpið, var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto sem stendur nú yfir. Myndin hefur fengið góðar dóma og sagði gagnrýnandi Screen Daily myndina fallega og að hún væri líkleg til að falla í kramið hjá áhorfendum.

„Það er frábært að fá svona góða dóma. Það skemmtilega við dóminn í Screen Daily er að gagnrýnandinn fer dýpra í túlkun sinni á myndinni en gengur og gerist í kvikmyndadómum og tengir hana meðal annars íslensku hugarfari og kreppunni, sem var akkúrat ætlun mín,“ segir Baltasar um dóm Howard Feinstein hjá Screen Daily. Sá telur að þrátt fyrir tragískan söguþráð myndarinnar muni hún slá í gegn hjá kvikmyndagestum víða um heim.

Djúpið var sýnd fimm sinnum í Toronto, tvisvar fyrir kaupendur og þrisvar fyrir hátíðargesti og var uppselt á þær síðarnefndu. Myndin hefur þegar verið seld til dreifingar í Skandinavíu, Bretlandi og Frakklandi og eiga aðstandendur í samningaviðræðum við dreifingaraðila í Bandaríkjunum, Japan og Ástralíu.

Djúpið verður frumsýnd hér á landi þann 27. september og á Baltasar ekki von á að Guðlaugur Friðþórsson sæki sýninguna, en myndin er byggð á leikverki sem var innblásið af þrekraun Guðlaugs sem synti í land eftir að skip hans fórst við Vestmannaeyjar árið 1984. „Ég bauð honum fyrir löngu en á ekki von á því að hann komi. Ég skil ástæður hans mjög vel en vissi því miður ekki af þeim fyrr en of seint. Sagan fjallar þó ekki bara um hann, heldur um alla íslenska sjómenn.“

Baltasar dvelur hér á landi í þrjár vikur og heldur að þeim tíma loknum aftur til Bandaríkjanna þar sem hann mun ljúka vinnu við kvikmyndina 2 Guns.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×