Innlent

Of feitar konur virðast líklegri til að eignast einhverf börn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heilsa kvenna virðist hafa áhrif á þroska barna þeirra.
Heilsa kvenna virðist hafa áhrif á þroska barna þeirra.
Konur sem eru of feitar, sykursjúkar eða með of háan blóðþrýsting á meðgöngu geta verið um 60% líklegri til þess að eignast börn með einhverfu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem verður birt í maíhefti læknatímaritsins Pediatrics. Paula Krakowiak, doktorsnemi í faraldsfræði við Kalíforníuháskóla, vinnur rannsóknina. Hún segir við vefinn Web MD að þótt sýnt hafi verið fram á einhver tengsl á milli heilsu móður á meðgöngu og einhverfu sé enn ekkert hægt að fullyrða um að heilsubrestir móður geti beinlínis orsakað einhverfu.

Meira en 1000 börn á aldrinum 2-5 ára voru rannsökuð. Af þessum börnum voru 517 með einhverfu og 172 með aðrar þroskaraskanir. Eins og fyrr segir voru konur sem voru of feitar, með sykursýki eða háan blóðþrýsting á meðgöngu um 60% líklegri til þess að eiga einhverft barn og meira en tvöfalt líklegri til þess að eiga barn með annarskonar þroskahömlun. Krakowiak segir að offita hafi verið langstærsti áhættuþátturinn.

Fleiri heilsufarsþættir hafa hingað til verið taldir tengjast hættunni á því að barn fái einhverfu. Í því samhengi hefur meðal annars verið rætt um meðgöngueitrun, truflanir í ónæmiskerfi og erfiðleika í fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×