Erlent

Efni í tómötum dregur úr hættunni á heilablóðfalli

Rannsókn hefur leitt í ljós að efni sem finnst í tómötum getur dregið úr hættunni á að fá heilablóðfall.

Efni þetta heitir lycopene og er skærrautt á litinn. Það er einnig að finna í paprikum og vatnsmelónum. Það voru vísindamenn í Finnlandi sem komust að þeim eiginleika lycopene að draga úr hættunni á heilablóðfalli í rannsókn sem náði til rúmlega 1.300 Finna og stóð yfir í 12 ár. Í ljós kom að þeir Finnanna sem voru með hæsta hlutfallið af lycopene í blóði sínu voru í minnstu hættunni á að fá heilablóðfall.

Í umfjöllun um málið á vefsíðu BBC segir að Finnunum var skipt í fjóra hópa. Í hópnum þar sem minnst var af lycopene í blóðinu fengu 10% heilablóðfall meðan á rannsókninni stóð. Í hópnum sem var með mest af lycopene í blóðinu var hlutfallið hinsvegar innan við 5%.

Dr. Jouni Kappi frá háskólanum í Kuopio sem stjórnaði rannsókninni segir að niðurstöðurnar styðji við fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að mikil neysla á ávöxtum og grænmeti dregur úr líkunum á heilablóðfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×