Fótbolti

Totti bætti met í stórsigri Roma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Francesco Totti fagnar í kvöld.
Francesco Totti fagnar í kvöld. Nordic Photos / AFP
Juventus jók í kvöld forystu sína á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar en fyrr í dag setti Francesco Totti, fyrirliði Roma, nýtt met í deildinni.

Juventus vann 2-0 sigur á Atalanta með mörkum Stephan Lichtsteiner og Emanuele Giaccherini og er liðið með 41 stig á toppnum, fjórum meira en AC Milan sem á leik til góða.

Fyrr í dag vann Roma stórsigur á Cesena, 5-1, þar sem Totte skoraði tvívegis á fyrstu átta mínútum leiksins. Þar með hefur hann skorað 211 mörk í efstu deild á Ítalíu sem er met.

Gamla metið átti Svíinn Gunnar Nordahl sem skoraði 210 með AC Milan fyrir meira en hálfri öld síðan.

„Þetta er það sem ég hef alltaf viljað," sagði Totti. „Að klæðast þessari treyju og slá hvert metið á fætur öðru. Ég mun spila eins lengi og líkaminn leyfir."

Roma er í sjötta sæti deildarinnar með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×