Fótbolti

Mourinho óttast frostið og gervigrasið í Moskvu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, hefur talað mikið um erfiðar aðstæður fyrir leik hans manna á móti CSKA Moskvu í Meistaradeildinni á morgun. Leikurinn fer fram á gervigrasi á Luzhniki Stadium og er búist við tíu stiga frosti á meðan leiknum stendur.

Real Madrid hefur verið á miklu flugi að undanförnu og er meðal annars með tíu stiga forskot á Barcelona í spænsku deildinni. Mourinho segir að hans menn þurfi að spila sinn besta leik til að vega upp á móti aðstæðum á morgun.

„Við verðum að vera sterkari en aðstæðurnar sem eru öðruvísi og erfiðar," sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn á morgun en allir búast við því að Real Madrid komist örugglega í átta liða úrslit keppninnar.

„Gervigrasvöllur er ekki eins og venjulegur grasvöllur og mínus tíu gráður eru ekki eins tíu gráður hiti. Við verðum að spila okkar besta leik til að yfirvinna þessar erfiðu aðstæður," sagði Mourinho.

Mourinho þekkir það að spila við CSKA Moskvu í Meistaradeildinni því hann mætti liðinu bæði sem þjálfari Chelsea og Inter.

„Þeir eru í Meistaradeildinni ár eftir ár og það er orðin venja að sjá þá komast upp úr riðlinum. Þeir eru erfiður mótherji og við verðum að bera fulla virðingu fyrir þeim," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×