Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vék að stjórnarskránni í innsetningarræðu sinni í gær. Þar hvatti hann kjörna fulltrúa til að ná samstöðu um málið.
„Þingið var í miklum vandræðum þegar komið var fram á vor á síðasta ári," segir Ari Teitsson, fyrrverandi varaformaður stjórnlagaráðs. „Sjálfstæðismenn voru ósáttir með þá ákvörðun að senda Geir Haarde fyrir landsdóm. Síðan þá hafa þeir verið í mótþróa og öll mál verið rammpólitísk.“

„Stjórnarskrármálið var og er ekki pólitískt mál, segir Ari. „Allir flokkar komu að málinu. Sjálfstæðismenn komu jafnvel að því að skipuleggja þjóðfundinn og unnu að heilindum í málinu."
Ari telur að efnisleg umræða um tillögur stjórnarráðs hafi í raun ekki farið fram. Hann telur málið vera í hnút, ekki af efnislegum ástæðum heldur pólitískum.
„Margir tala um að breið sátt verði að vera um breytingar á stjórnarskrá. Staðreyndin er sú að sú sátt er einfaldlega ekki í boði. Þetta er náttúrulega dapurlegt enda tel ég að flestir viðurkenni að full þörf hafi verið á að laga stjórnarskránna."
Þá bendir Ari á að á því tímabili sem liðið er frá því að tillögunum var skilað, þá hafi enginn bent efnislega á þætti sem vert væri að breyta.
„Þeir eiga það sameiginlegt sem gagnrýnt hafa tillögurnar að hafa ekki komið hugmyndir um hvernig hlutirnir ættu að vera í staðinn," segir Ari.